Það má búast við einhverri sölupressu með bréf Icelandair Group á næstu dögum, þar sem hluti þeirra sem tóku þátt í útboðinu munu selja strax og innleysa þar með ágætan hagnað.Gengi félagsins á markaði er nú um 20% hærra en gengið í hlutafjárútboði félagsins sem lauk nýlega.

Þetta kemur fram í vikulegum markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Nýir hlutir í félaginu verða teknir til viðskipta í kauphöll á morgun, þriðjudag.

„Eftir vel heppnað hlutafjárútboð í lok síðasta árs hefur Icelandair nú gert samning um viðskiptavakt við Landsbankann og Saga Fjárfestingarbanka. Tilgangurinn með viðskiptavaktinni er að efla viðskipti með hlutabréf í Icelandair í því skyni að eðlilegt markaðsverð skapist á hlutabréfunum.

Þetta eru mjög jákvæðar fréttir og gerir fjárfestingar í félaginu mun áhugaverðari en áður. Það má búast við einhverri sölupressu með bréf félagsins á næstu dögum þar sem hluti þeirra sem tóku þátt í útboðinu munu selja strax og innleysa þar með ágætan hagnað en gengi félagsins nú er um 20% hærra en gengið í útboðinu,“ segir í Vikulegum markaðsfréttum.