Búast má við að íslenskir lífeyrissjóðir verði fyrir vaxandi samkeppni af hálfu erlendra lífeyrissjóða og vörsluaðila lífeyrissparnaðar i framtíðinni. Þetta kom fram á fundi fulltrúarráðs lífeyrissjóða fyrir skömmu en þar kynnti stjórn LL niðurstöðu stefnumótunarvinnu. Það er þó álit LL að íslensku lífeyrissjóðirnir séu í sterkri stöðu til að mæta slíkri samkeppni sem mun kalla á ýmsar nýjungar í starfsemi sjóðanna og fleiri afurðir.

Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða kynnti á fulltrúaráðsfundi samtakanna fyrir helgi stefnumótunarvinnu, sem unnið hefur verið að síðan í október síðastliðnum. Er þetta í þriðja skiptið sem stjórn LL leggur fram stefnumótun fyrir samtökin, en síðast var það gert árið 2002. Sérstaka athygli vakti framtíðarsýn stjórnarinnar í málefnum lífeyrissjóðanna.