Fyrir helgi birtist einkar áhugavert viðtal við Má Guðmundsson seðlabankastjóra við fréttamiðilinn Bloomberg. Viðskiptablaðið greindi frá viðtalinu en þar er meðal annars haft eftir seðlabankastjóra að „Við erum að lækka vaxtarstig okkar á sama tíma og aðrir hækka sitt“. Vakti þessi tónn Más talsverða athygli.

Í greiningu Arion banka segir að það virðist talsverður vilji hjá peningastefnunefnd að halda áfram að lækka vexti og samhliða því að slaka á eða afnema alveg bindiskylduna á erlent fjármagn eftir því sem vaxtamunur við útlönd minnkar.

Út frá nýrri langtíma verðbólguspá Arion banka gerir Greiningardeildin ráð fyrir lækkun vaxta um 50 punkta það sem eftir lifir árs en að vextir standi svo í stað í 4% út árið 2018. Helstu rökin fyrir því að vextir lækka, að mati greiningaraðila, eru að verðbólga verður að líkindum áfram nálægt markmiði á næstunni.

Már bendir á - í viðtalinu við Bloomberg - að lægri vextir dragi úr hvata til vaxtamunarviðskipta og þar af leiðandi opnast svigrúm til þess að draga úr bindiskyldu á erlendra fjárfestingu sem ætlað er að halda aftur af slíkum viðskiptum. Greiningardeildin bendir á að í dag gildir þessi bindiskylda fyrir erlenda fjárfestingu í skuldabréfum og innlánum þar sem binda þarf 40% fjárfestingarinnar á vaxtalausum reikningi í eitt ár.

„Þó að áður hafi verið gefið í skyn að bindiskyldan sé sífellt til endurskoðunar og það gæti verið slakað á henni hefur það þó sjaldan komið jafn skýrt fram að ósk Seðlabankans sé að hún sé ekki varanleg,“ segir í greiningu Arion banka.

Sögulega lítill vaxtamunur

„Ef við reiknum með þessum vaxtalækkunum um samtals hálft prósentustig og horfum til væntinga greiningaraðila um vaxtaþróun í Bandaríkjunum og á Evrusvæðinu er útlit fyrir að vaxtamunur muni áfram fara lækkandi á næstu mánuðum, sérstaklega gagnvart Bandaríkjunum. Gangi það eftir verður skammtímavaxtamunur við Bandaríkin orðin rúm 2% undir árslok 2018, sem er mun minni munur en hefur áður sést. Sem dæmi var vaxtamunurinn tæp 10% árið 2007 og tæp 6% þegar bindiskyldunni var komið á fyrir rúmu ári síðan. Ef þessi sviðsmynd rætist eru enn sterkari rök fyrir því að slakað verði á bindiskyldunni,“ er jafnframt tekið fram í greiningunni.