Grímur Sæmundssen, forstjóri Bláa lónsins, segir í samtali við mbl.is að hann geri ráð fyrir því að um 700.000 gestir heimsæki heilsulindina þetta árið en um 650.000 gestir heimsóttu Bláa lónið í fyrra. Þá gerir hann ráð fyrir því að sjö af hverjum tíu ferðamönnum sem koma til Íslands heimsæki Bláa lónið og að þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna síðustu árin nái fyrirtækið að halda í það hlutfall ár frá ári.

Á sama tíma og ferðamannafjöldi til Íslands hefur næstum tvöfaldast frá árinu 2009 hefur Bláa lónið tvöfaldað verð þjónustu sinnar en verðhækkunin hefur ekki haft áhrif á aðsókn ferðamanna í heilsulindina. Þá segir Grímur að líklegt sé að fyrirtækið hafi undirverðlagt þjónustu sína í gegnum árin.