Hagvöxtur í ár gæti orðið á bilinu 2,5-3,5%, samkvæmt leiðandi hagvísi Analytica sem kom út í dag. Vísitalan hækkar í febrúar, áttunda mánuðinn í röð og er gert ráð fyrir vexti áfram.

„Hagvöxtur síðasta árs reyndist 3,3% og var drifinn af vexti í ferðamannaþjónustu. Horfur eru á að árið 2014 byrji á sterkum nótum og gæti hagvöxtur ársins orðið á bilinu 2,5-3,5%. Vísbendingar eru um að innlend eftirspurn sé að aukast og enn meiri aukning er í komum ferðamanna en fyrir ári. Hins vegar er talsverður samdráttur í fiskafla vegna loðnubrests,“ segir í hagvísinum.

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum. Analytica segir að vísitalan sé reiknuð á grundvelli sömu aðferðafræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur séu reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD.