Hlutabréfamarkaðir einkenndust af grænum tölum í Evrópu og Bandaríkjunum í gær og hafa haldið áfram að hækka í Evrópu í morgun.

Ástæðan er sú að markaðir gera ráð fyrir aukinni eyðslu og örvandi aðgerðum evrópska Seðlabankans til að sporna við verðhjöðnun á Evrusvæðinu, sérstaklega í kjölfar þess að verð á fat af Brent hráolíu fór undir 50 dali í gær.

Verðbólga í Evrópu mældist neikvæð um 0,2 prósentustig í desember en verðbólgumarkmið Seðlabanka Evrópu er tæplega 2 prósentustig. Markaðir bíða nú óþreyjufullir eftir því að magnbundinni íhlutun (e. quantitative easing) verði beitt.

Það eru hins vegar fleiri mál á dagskrá í janúarmánuði sem munu hafa mikla þýðingu fyrir þróun mála á Evrópumarkaði á þessu ári. Þannig mun Evrópudómstóllinn kveða upp dóm um lögmæti skuldabréfakaupa Seðlabanka Evrópu þann 14. janúar næstkomandi, auk þess sem kosningar verða haldnar í Grikklandi undir lok mánaðar.