Markaðsaðilar búast við því að Seðlabanki Íslands hækki vexti um 0,75 – 1 prósentustig í næstu viku. Bankinn hóf vaxtahækkunarferlið örlítið fyrr en aðrir seðlabankar sem eru núna að taka við sér.

Englandsbanki tilkynnti í dag að stýrivextir yrðu hækkaðir um 0,25 prósentustig í fimmta skiptið í röð. Bankinn sagði frekari hækkanir geta verið nauðsynlegar til að koma böndum á verðbólguna.

Mesta hækkun vestanhafs í tæp 30 ár

Þá tilkynnti bandaríski seðlabankinn í gær að ákveðið hefði verið að hækka stýrivexti bankans um 0,75 prósentustig og verða þeir því á bilinu 1,5% - 1,75%. Þetta er mesta hækkun stýrivaxta þar í landi frá árinu 1994. Peningastefnunefnd bankans gaf til kynna að frekari vaxtahækkanir væru í vændum vegna vaxandi verðbólgu, sem mældist 8,6% í Bandaríkjunum í maí og hefur ekki verið meiri í 40 ár.

Eftir að bankinn tilkynnti ákvörðunina lækkaði ávöxtunarkrafa bandarískra skuldabréfa. Því má gera ráð fyrir að markaðurinn hafi verið búinn að verðleggja vaxtahækkunina inn og gott betur. Mest lækkaði styttri endi rófsins, um 35 punkta til 5 ára en aðeins um 15, á hinum enda rófsins, til 30 ára.

Stýrivaxtabreytingar hafa alla jafna meiri áhrif á styttri vexti enda um skammtímavexti að ræða, en seðlabankar nota væntingastjórnun - svokallaða framvirka leiðsögn - til að stýra lengri enda rófsins.

Ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisbréfa þar í landi hefur hækkað frá 130 og upp í 200 punkta frá áramótum, mest til 5 ára en minnst til 30, og stóð við lokun markaða í gær í frá 38 til 0,86 í sömu röð. Fyrir lækkun gærdagsins höfðu 5 ára vextirnir hækkað um 234 punkta og 30 ára um 145.

Hér heima hefur hækkun verðtryggðu ríkisvaxtanna verið öllu minni frá áramótum eða frá 33 punktum á RIKS 33 bréfinu til 11 ára og upp í 93 á RIKS 26 til tæplega 4 ára. Krafa þeirra stendur í dag á mjög svipuðum stað og vestanhafs, á bilinu 59 og 101 punktur fyrir áðurnefnd bréf, en hið nýútgefna 15 ára RIKS 37 frá því í lok janúar stendur í 105 punktum.

Vextir yfir 6% á árinu

Svipuð staða er upp hér á landi en samkvæmt sérfræðingum á skuldabréfamarkaði sem Viðskiptablaðið ræddi við er búið að verðleggja töluverðar vaxtahækkanir inn í vaxtaferilinn hér heima. Út frá verðlagningu á ríkisskuldabréfamarkaði megi gera ráð fyrir að vextir fari yfir 6% á þessu ári.

Viðmælendur sögðu einhverjar væntingar hafa verið um að framboð á verðtryggðum sértryggðum skuldabréfum myndi aukast. Væntingarnar hafi byggst á þeirri forsendu að fólk færi að flytjast yfir í verðtryggð lán aftur en aðgerðir seðlabankans miðast að því að draga úr slíkum hreyfingum.