Búast má við því að hagnaðar flugfélaga á heimsvísu nemi um 10,6 milljörðum Bandaríkjadala á þessu ári.

Þetta kemur fram í nýrri heimsmarkaðsspá IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga, fyrir árið í ár. Fyrri spá IATA hafði gert ráð fyrir 8,4 milljarða dala hagnaði flugfélaga á heimsvísu. Þess ber að geta að samanlagður hagnaður flugfélag á síðasta ári nam 7,6 milljörðum dala.

Nokkur bjartsýni einkennir því spá IATA sem birt var í morgun. Samkvæmt henni má rekja væntingar til aukins hagnaðar til aukinnar umferðar í farþegaflugi, þá sérstaklega í Asíu og Mið-Austurlöndum auk þess sem fraktflutningar í flugi eru að sögn IATA að taka við sér á ný en fraktflug hefur verið í mikilli lægð síðustu fjögur ár.

Þannig spáir IATA því að farþegaflutningar aukist um 5,4% á milli ára á þessu ári, en fyrri spá gerði ráð fyrir 4,5% aukningu. Þá spáir IATA því að fraktflug aukist um 2,7% á milli ára á árinu á meðan fyrri spá gerði ráð fyrir 1,4% aukningu.

Í spá IATA kemur fram að auknar tekjur flugfélaga gefi aukna von til frekari hagnaðar auk þess sem hægt hafi á hækkun eldsneytisverðs á heimsvísu. Áætlað er að tekjur flugfélaga á heimsvísu nemi um 670 milljörðum dala á árinu en fyrri spá gerði ráð fyrir um 660 milljörðum dala.