Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur uppfært hagspá sína fyrir Kína um 0,3 prósentustig. Sjóðurinn gerir nú ráð fyrir því að hagvöxtur verði 7,5% á árinu í stað 7,2% eins og fyrri spá hljóðaði upp á. Í hagspá sinni setur AGS fyrirvara við aukna skuldsetningu í Kína en skuldir hins opinbera og einkaskuldir hafa stóraukist síðustu misserin og nema nú 207% af landsframleiðslu.

Fram kemur í bandaríska miðlinum Kansas City Star að hagspáin sé í samræmi við spá kínverska kommúnistaflokksins um ganginn í efnahagslífinu. Þá segir í blaðinu að þótt hagvaxtartölurnar séu nokkuð undir þeim sem sáust á árum áður þá verði þetta með sterkasta hagvexti í byggðu bóli.