Undanfarin misseri hefur Seðlabanki Íslands keypt gjaldeyri á ógnarhraða. Gjaldeyriskaup námu til að mynda 47 milljörðum í júlí og hefur krónan styrkst um 3% gagnvart evru í júlímánuði.

Seðlabankinn hefur hingað til haldið nokkuð óbreyttri stefnu í þeim málum. Greiningardeild Arion banka telur það þó líklegt að Seðlabanki Íslands muni draga úr gjaldeyrisinngripum á næstunni og að gengi krónunnar haldi áfram að styrkjast.

Hægt að skipta öllu íslensku reiðufé í erlendan gjaldeyri

Einn stærsti óvissuþátturinn hvað gengi krónunnar varðar er nú losun hafta á innlenda aðila en ef sú losun fer fram í nokkrum skrefum og er vel útfærð verða áhrifin á gengi krónunnar lítil. Krónan virðist að mati greiningaraðilanna ekki hafa náð nýju jafnvægisraungengi og því er Seðlabankinn búinn að safna í forða sem ætti að vera nægilega stór til þess að bregðast við sveiflum og áföllum.

Í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka kemur fram að hreinn gjaldeyrisforði dugi til að skipta öllu íslensku reiðufé og innlánum á tékkareikningum í erlendan gjaldeyri. Forðasöfnunin hefur þó annan tilgang, en sá hefur verið að eiga nægan gjaldeyri til þess að eiga fyrir aflandskrónuútboðunum. Útboðunum er nú lokið og var þáttaka afar lítil.

Tími til kominn?

Í ljósi þeirra aðstæðna sem hafa myndast, telur greiningardeildin tíma kominn til að Seðlabanki Íslands og peningastefnunefnd bankans breyti um stefnu í gjaldeyrisinngripum. Að mati sérfræðinganna hefur það verið gefið í skyn að svo verði, og taka greinendur þá helst tillit til orða úr fundargerð nefndarinnar:

„Nefndin ræddi einnig niðurstöður nýlegs mats á jafnvægisraungenginu sem bendir til þess að hækkun raungengis undanfarið megi að töluverðu leyti rekja til aðlögunar þess að hærra jafnvægisraungengi. Í því sambandi var bent á að til lengri tíma litið þyrfti Seðlabankinn að varast að reyna að hindra eðlilega aðlögun raungengisins að hærra jafnvægisgildi.

Bent var á að markmiðið með gjaldeyriskaupum Seðlabankans væri við venjulegar aðstæður að vinna gegn óhóflegum sveiflum í gengi krónunnar og við vissar aðstæður að vinna gegn fráviki gengis frá jafnvægisgengi.

Nú væri markmiðið einnig að byggja upp gjaldeyrisforða í aðdraganda losunar fjármagnshafta. Við fyrirhugað útboð vegna svokallaðra aflandskróna yrðu ákveðin kaflaskil hvað það snerti og staðan yrði endurmetin í aðdraganda losunar fjármagnshafta á innlenda aðila.“

Greiningardeildin skilur þessi orð svo að Seðlabanki Íslands muni draga úr gjaldeyrisinngripum á næstunni og þannig munu þeir leyfa gengi krónunnar að styrkjast enn frekar. Það myndi þýða að verðbólguhorfur batni enn frekar á næstu mánuðum og jafnvel misserum. Þar sem of mikil styrking krónunnar getur grafið undan stöðugleika, telur greiningardeildin að Seðlabanki Íslands verði varfærinn í að draga úr gjaldeyrisinngripum.