Gangi allt eftir mun hagnaður Haga á öðrum ársfjórðungi verða sá mesti síðan félagið var skráð á markað, samkvæmt afkomuspá IFS Greiningar . Hlutabréf Haga voru skráð í Kauphöllina í desember árið 2011.

Í afkomuspá IFS Greiningar er rifjað upp að Hagar gaf út jákvæða afkomuviðvörun undir lok síðasta mánaðar þar sem sagði að nettóhagnaður á fyrri helmingi rekstrarákrsins verði ríflega 1,9 milljarðar króna. Í fyrra nam hann rúmum 1,5 milljörðum króna. IFS Greining segir í afkomuspánni að þar sem hagnaðurinn á fyrsta ársfjórðungi nam 837 milljónum króna hafi verið ljóst að félagið hafi náð langt í 1,1 milljarðs króna hagnað á öðrum ársfjórðungi.

IFS Greining segir skýringarnar á góðum árangri á fjórðungnum vera meiri veltu, lækkun rekstrarkostnaðar, afskriftir og fjármagnskostnað á sama tíma og álagning breytist ekki á milli ára.

IFS Greining segir gert ráð fyrir því að velta aukist um 6,3% á milli ára og að rekstrarkostnaður lækki í heild úr 16,5% í 16,3% auk lækkunar á afskriftum og fjármagnskostnaði. Það muni skila sér í 1.070 milljóna króna væntum nettóhagnaði.

Hagar birtir uppgjör fyrir fjórðunginn í næstu viku og mun IFS Greining þá gefa út nýtt virðismat á félaginu.