Verð skuldabréfa gömlu bankanna Glitnis og Kaupþings hefur hækkað lítillega á markaði frá því að síðast voru birtar upplýsingar um gildi skuldabréfanna. Samkvæmt upplýsingaveitunni Keldan.is er búist við að 25,5% fáist upp í almennar kröfur í Glitni og Kaupþingi. Gildi bréfanna var uppfært 7. febrúar síðastliðinn.

Áður hafði verðið verið uppfært í lok október á síðasta ári. Þá var gildi bréfanna 24,0 hjá Kaupþingi og 25,0 hjá Glitni. Verð á bréfum gamla Landsbankans hefur ekki breyst, samkvæmt þeim viðskiptum sem Keldan tekur mið af. Þar búast fjárfestar við að 5% fáist upp í almennar kröfur.