Íslenski tölvuleikjaframleiðandinn CCP hefur fengið útgáfuleyfi fyrir kínverska útgáfu EVE Online og verður leikurinn því fáanlegur þar í landi innan skamms. Útgáfan sem Kínverjar munu spila er þróuð í samvinnu við kínverska leikjarisann NetEase.

Kínverski leikjamarkaðurinn er einn sá stærsti í heimi og býst fyrirtækið við að þetta skref leiði til þess að fjöldi spilara EVE Online margfaldist fyrir lok þessa árs.

Tvær milljónir á biðlista eftir farsímaútgáfu EVE Online

EVE Online hefur notið mikilla vinsælda meðal fólks hvaðanæva úr heiminum síðan leikurinn var fyrst gefinn út fyrir rúmum tveimur áratugum. Einföld útgáfa af leiknum hefur verið fáanleg í Kína síðan árið 2006 en þar í landi þarf sérstakt leyfi fyrir tölvuleikjastarfsemi. Árið 2017 skipti CCP um samstarfsaðila í Kína og síðan þá hefur fyrirtækið beðið eftir nýju leyfi sem nú hefur fengist.

Yfir tvær milljónir eigenda Android-síma hafa forskráð sig til að sækja EVE Echoes, nýja farsímaútgáfu af EVE Online, en hann hefur verið í beta-prófunum á nokkrum stöðum í heiminum að undanförnu og mun koma út um heim allan á þessu ári. Búist er við svipuðum fjölda forskráninga þegar iPhone-útgáfa leiksins verður kynnt á næstunni.

Hilmar Veigar Pétursson , forstjóri CCP segir félagið hlakka til að hefja þennan nýja kafla í sögu EVE Online í Kína.

„Fyrstu skrefin voru tekin árið 2005 þegar við tókum þátt í ráðstefnunni ChinaJoy og kynntum leikinn okkar fyrir kínverskum spilurum í fyrsta sinn. Síðan þá, og þegar EVE var upphaflega gefinn út í Kína í maí árið 2006, höfum við tekið eftir því hversu ástríðufullir kínversku spilararnir eru og hvernig þeir helga sig leiknum. Það hefur hvatt okkur til að sækja innblástur í margt af því sem við höfum lesið í kínverskum vísindaskáldskap og séð í kínverskum vísindaheimi,“ segir Hilmar Veigar.

„Þótt Kína sé eitt fjölmennasta land í heimi, og Ísland eitt það fámennasta, höfum við eignast fjölmarga vini og kynnst líkt þenkjandi fólki á þessum fimmtán árum sem liðin eru frá því að við hófum fyrst starfsemi þar. Við erum afar stolt af því að hafa, í samstarfi við vini okkar hjá NetEase, gefið EVE Online út á stærsta leikjamarkaði heims – bestu útgáfu leiksins til þessa.“

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir , ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

„Íslendingar hafa fylgst með CCP og EVE Online vaxa og dafna allt síðan CCP var fyrst stofnað árið 1997. Við hlökkum til að sjá hvað þessi næsti kafli í sögu EVE ber í skauti sér og ég vil óska bæði CCP og NetEase til hamingju með samstarfið. Samstarf sem þetta er afar mikilvægur þáttur í að stuðla að aukinni nýsköpun og áhugaverðum atvinnutækifærum hér á landi.“