Hagfræðideild Landsbanka Íslands spáir því að 0,37% hækkun verði á vísitölu neysluverðs milli mánaða, en Hagstofan birtir októbermælingu sína föstudaginn 27. nóvember næstkomandi að því fram kemur í nýrri Hagsjá bankans .

Þar með muni verðbólgan hækka úr 3,6% í 3,8%, en bráðabirgðaspá bankans gerir ráð fyrir að verðbólgan haldi svo áfram að hækka í desember, eða í 4,0%, og janúar, eða í 4,4%, en lækki svo aftur niður í 4,0% í febrúar.

Í könnun Seðlabankans um væntingar markaðsaðila kemur fram að þeir vænti þess að verðbólgan verði að meðaltali 3,7% á yfirstandandi ársfjórðungi, en fari í tæp 3,8% á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.

Eftir það taki hún að hjaðna en verði áfram yfir verðbólgumarkmiði bankans fram á þriðja ársfjórðung. Könnunin var gerð meðal 29 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, en svör fengust frá 26 þeirra, eða 90%.

Verðbólgan umfram væntingar

Verðbólgan var hvort tveggja meiri í síðasta mánuði en greinendur Landsbankans höfðu búist við sem og verðbólguvæntingarnar meðal markaðsaðilanna sem Seðlabankinn leitaði til er meiri nú en í könnun í ágúst. Þannig var hækkun vísitölu neysluverðs í október 0,43%, meðan spá Landsbankans var 0,35%, en aðrar spár höfðu veri allt niður í 0,2%.

Hækkun matar og drykkjarvara nam 1% í október en nú væntir Landsbankinn að dragi úr hækkunartaktinum, meðan föt og skór hækkuðu minna en bankinn bjóst við, en þess í stað væntir bankinn þess að sú hækkun komi til í nóvember. Einnig reiknar bankinn við því að húsgögn og heimilisbúnaður hækki vegna gengisáhrifa í nóvember.

Í ágúst væntu markaðsaðilar að verðbólgan myndi ná hámarki í tæplega 3%, en tæki þá að hjaðna og myndi ná verðbólgumarkmiðinu, 2,5%, á öðrum ársfjórðungi næsta árs.

Áfram vænta markaðsaðilar að verðbólgan til eins, tveggja, fimm og tíu ára verði í markmiði, en þeir vænta þess jafnframt að gengi krónunnar styrkist á næstu misserum og gengið gagnvart evru verði 158 krónur eftir eitt ár.

Stýrivextir hækki undir lok árs 2021

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans verði áfram 1% fram undir lok ársins 2021 en að þeir hækki eftir það og verði 1,25% eftir tvö ár.

Þetta eru hærri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans í ágúst sl. en þá væntu þeir þess að vextir myndu lækka um 0,25 prósentur á fjórða fjórðungi þessa árs og yrðu 0,75% fram á þriðja fjórðung næsta árs.

Flestir svarenda, eða tæp 60%, telja að taumhald peningastefnunnar sé hæfilegt um þessar mundir sem er nokkuð hærra hlutfall en í síðustu könnun þegar það var tæp 50%. Á móti fækkar þeim sem telja að taumhaldið sé of laust úr 23% svarenda í 12%. Hlutfall þeirra sem telja að taumhaldið sé of þétt er áfram um 30%.