Góðar líkur á að afgangur af þjónustujöfnuði verði mun meiri í ár en í fyrra, a.m.k. hvað ferðaþjónustuna snertir, að mati Greiningar Íslandsbanka. Deildin segir í Morgunkorni sínu í dag að ráða megi af tölum Seðlabankans um kortaveltu, sem sýna að um langmesta afgang er að ræða nú í ár af kortaveltujöfnuði (þ.e. mismunur á kortaveltu útlendinga hér á landi og Íslendinga í útlöndum) á öðrum ársfjórðungi frá upphafi. Afgangur af kortaveltujöfnuði nemur 3,3 milljörðum króna á fjórðungnum í ár samanborið við 461 milljónir króna í fyrra og halla árið á undan. Bent er á það í Morgunkorninu að á þensluárunum 2006-2008 var halli á kortaveltujöfnuði upp á 8,5 til 10,0 milljarða króna.

Greiningin bendir á að í ljósi þeirrar gríðarlegu fjölgunar sem orðið hefur á erlendum ferðamönnum og aukinni neyslu þeirra hér á landi verði sérstaklega spennandi að sjá hvernig liður þjónustujafnaðarins sem snýr að ferðaþjónustu kemur út.

Morgunkorn Íslandsbanka