Gangi kaup fasteignafélagsins Regins á Eik eftir er gert ráð fyrir því að 105 milljónir króna sparist í stjórnunarkostnað. Fram kemur í kynningu Regins í tengslum við kaupin að stjórnunarkostnaður fari úr 450 milljónum króna niður í 345 milljónir. Þetta jafngildir 23% lækkun. Með þessari hagræðingu hækkar arðsemi kaupanna úr 6,6% í 7,1%. Þá er ótalið annað hagræði, s.s. sem felst í stærðarhagkvæmni yfir lengri tíma og betri kjörum á fjármálamarkaði.

Reginn gerði hluthöfum Eikar fasteignafélags tilboð á fimmtudag í síðustu viku . Það nær til allra hluthafa en 68% eigenda hlutafjár þurfa að samþykkja það að lágmarki. Reginn stefnir á að fjármagna kaupin sem nema tæpum 8,2 milljörðum króna með útgáfu hlutafjár.

Kauptilboð  byggir á að hver hlutur í Reginn sé metinn á 13,53 krónur á hlut. Hver hlutur í Eik fasteignafélagi er í tilboðinu metinn á 5,05 krónur á hlut.

Hverjir eiga hvað?

Um síðustu áramót voru hluthafar Eik fasteignafélags 30 talsins. Þrír hlutahafar áttu samkvæmt ársreikningi meira en 10% í félaginu, þ.e. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins átti 14,8%, Almenni lífeyrissjóðurinn 13,7% og Lífeyrissjóður verkfræðinga 13,2%.

Fasteignafélagið Reginn var skráð á markað í júlí í fyrra. Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti hluthafi félagsins með 12,26% hlut. Gildi lífeyrissjóður á 8,51%. Á meðal annarra á lista yfir tíu stærstu hluthafa félagsins eru tveir sjóðir Stefnis, dótturfyrirtækis Arion banka, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Landsbankinn, Stapi lífeyrissjóður og Íslandsbanki.