Markaðsaðilar búast við því að verðbólga verði minni á næstu mánuðum en áður, ef marka má könnun sem Seðlabankinn lét framkvæma meðal 29 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði. Miðað við miðgildi svara í könnuninni virðast markaðsaðilarnir vænta um 1,1% verðbólgu á þriðja fjórðungi þessa árs, 1,6% á fjórða fjórðungi og 2% á fyrsta fjórðungi næsta árs. Það er u.þ.b. 1 prósentu minni verðbólga en þeir gerðu ráð fyrir í byrjun maí.

Könnunin bendir einnig til þess að þeir búist við að verðbólga verði 2,3% eftir eitt ár sem er 0,7 prósentum minni verðbólga en í síðustu könnun og 3% eftir tvö ár sem er 0,5 prósentna lækkun frá því síðast. Þá vænta þeir að meðalverðbólga á næstu fimm árum verði 3% sem er lækkun um rúmlega 0,3 prósentur frá könnuninni í maí. Væntingar um meðalverðbólgu á næstu tíu árum lækkuðu einnig eða um 0,5 prósentur milli kannana og eru nú 3%. Þá gefur könnunin til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi evru gagnvart krónu verði 125 krónur eftir eitt ár, þ.e. að gengi krónu verði 4,8% hærra en þeir væntu í síðustu könnun bankans.

Þegar könnunin var framkvæmd taldi um 16% svarenda taumhald peningastefnunnar vera hæfilegt sem er 9 prósentum lægra en í síðustu könnun. Hlutfall þeirra sem töldu taumhald peningastefnunnar of laust eða alltof laust lækkaði úr 25% í 5% og hlutfall þeirra sem töldu taumhaldið of þétt eða alltof þétt hækkaði úr 50% í 79%. Eru niðurstöður þessarar könnunar um skoðun markaðsaðila á taumhaldi peningastefnunnar ólíkar því sem þeir spáðu um núverandi ársfjórðung í síðustu könnun en þá töldu einungis 38% að taumhaldið yrði of þétt eða alltof þétt á þriðja fjórðungi þessa árs.