Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar fyrir SA og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna að umsvif í atvinnulífinu haldi áfram að minnka. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.

Mat stjórnenda á núverandi aðstæðum í atvinnulífinu er tvískipt, þar sem jafn margir telja aðstæður góðar og slæmar, en mun fleiri telja að þær versni en batni á næstunni. Stjórnendur á landsbyggðinni eru mun svartsýnni en á höfuðborgarsvæðinu.

Skortur á starfsfólki er nánast enginn og útlit fyrir fækkun starfa um 0,5% á næstu sex mánuðum. Stjórnendur vænta 3% verðbólgu á næstu 12 mánuðum og einnig eftir tvö ár.

Hlutlaust mat á núverandi aðstæðum

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, hækkar örlítið og er svipuð og fyrir fimm árum, þ.e. á fyrri hluta ársins 2014. Örlítið fleiri telja aðstæður góðar en slæmar.
23% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu góðar, samanborið við 60% fyrir ári síðan. 20% telja þær slæmar, samanborið við 12% fyrir ári síðan. Aðrir telja þær hvorki góðar né slæmar. Væntingar eru langminnstar í ferðaþjónustu og sjávarútvegi.

Mat stjórnenda á landsbyggðinni á núverandi aðstæðum er mun lakara en á höfuðborgarsvæðinu. 33% stjórnenda á landsbyggðinni telja aðstæður slæmar en aðeins 14% góðar, en því er öfugt farið á höfuðborgarsvæðinu þar sem 17% telja aðstæður slæmar en 26% góðar.