Fjármálastjórar hafa aldrei verið jafn svartsýnir og nú samkvæmt niðurstöðum könnunar Deloitte meðal fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins.

„Þetta eru einfaldlega svartsýnustu niðurstöður sem við höfum séð frá því að við byrjuðum með þessa könnun haustið 2014,“ segir Lovísa A. Finnbjörnsdóttir, sviðsstjóri fjármálaráðgjafar Deloitte . „Allar breytur eru í sömu átt. Um helmingur fjármálastjóra telur sig standa frammi fyrir mikilli fjárhagslegri og efnahagslegri óvissu og þá búast um 60% við niðursveiflu, sem er skilgreind sem neikvæður hagvöxtur tvo ársfjórðunga í röð.

Þess ber að geta að könnunin var framkvæmd í mars og færa má rök fyrir því að óvissan hafi verið meiri þá en hún er í dag vegna þess að ekki var búið að loka kjarasamningum. Ég tel að þetta kunni að hafa litað niðurstöðurnar nokkuð, sem og sú staðreynd að á þessum tíma var einnig töluvert mikil umræða um óvissu í ferðaþjónustu en sú óvissa er reyndar ekki endilega minni í dag en hún var í mars. Það verður spennandi að sjá niðurstöður næstu könnunar og á ég von á því að þær verði bjartari. Við finnum að minnsta kosti fyrir jákvæðari tón á meðal stjórnenda.“

Litlar fjárfestingar

Eins og Lovísa segir þá hóf Deloitte að gera þessar kannanir haustið 2014 og síðan þá hefur fyrirtækið gert sambærilegar kannanir tvisvar á ári, annars vegar á vorin og hins vegar á haustin. Kannanirnar hafa því verið gerðar í fimm ár.

Aldrei hafa jafn fáir fjármálastjórar verið jákvæðir gagnvart þróun á tekjum og EBITDA (hagnaði fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta) næstu tólf mánuði. Sem dæmi telja 50% þeirra að tekjur muni aukast á næstu tólf mánuðum en hæst hefur þetta hlutfall farið í 81% en það var vorið 2016.

4,01% verðbólga

Eins og áður sagði telja 50% fjármálastjóra að fyrirtæki þeirra standi frammi fyrir mikilli fjárhagslegri og efnahagslegri óvissu. Síðasta haust var þetta hlutfall 32% og fyrir ári var það 28%. Þegar stjórarnir eru spurðir að því hvaða ytri áhættuþættir hafi helst áhrif á reksturinn nefna 69% gengisþróun krónunnar. Í þessari spurningu máttu þeir merkja við fleiri en einn valkost og næst á eftir krónunni kom vaxtastigið en 49% nefndu það. Þá nefndu 45% verðbólgu en að meðaltali telja fjármálastjórarnir að verðbólgan verði 4,01% hérlendis á næstu 12 mánuðum.

Flestir fjármálastjóranna telja að á næstu sex mánuðum muni krónan veikjast, eða 68% þeirra. 25% telja að gengið muni haldast óbreytt á þessu tímabili og 8% að það muni styrkjast. Síðasta haust töldu 84% fjármálastjóra að krónan myndi veikjast, 11% töldu að gengið myndi haldast óbreytt og 4% að það myndi styrkjast.

Hvað vaxtastigið varðar þá telja 88% fjármálastjóra að stýrivextir Seðlabanka Íslands séu nokkuð eða mjög háir. Fara þarf tvö ár aftur í tímann til að finna hærra hlutfall en vorið 2017 töldu 95% stjóranna að stýrivextirnir væru háir.

Fáir búast við auknum hagvexti

Alls telja 11% fjármálastjóra að hagvöxtur muni aukast á næstu tveimur árum. Svartsýni hvað þetta varðar hefur ekki verið meiri síðan frá 2014. Áður hafði hlutfallið lægst farið í 14% en það var síðasta haust. Hæst hefur þetta hlutfall verið 84% en það var haustið 2015. Athygli vekur að 60% fjármálastjóra búast við niðursveiflu í efnahagslífinu en niðursveifla er skilgreind sem neikvæður hagvöxtur í tvo samfellda ársfjórðunga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .