*

þriðjudagur, 21. september 2021
Erlent 28. júlí 2021 10:50

Búast við sömu sæta­nýtingu og fyrir Co­vid

Wizz Air býst við að sætanýting verði sú sama í ágúst á þessu ári og áður en faraldurinn skall á í Evrópu.

Snær Snæbjörnsson
Flugvél Wizz Airí Keflavík.
Aðsend mynd

Ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air telur að farþegafjöldi muni í næsta mánuði ná sömu hæðum og áður en faraldurinn skall á. Guardian greinir frá. 

Félagið er bjartsýnt þrátt fyrir 114 milljóna evra tap á öðrum ársfjórðungi þessa árs og væntir þess að sætanýting verði um 90% af því sem hún var í júlí, áður en faraldurinn teygði anga sína til Evrópu, og 100% af því sem hún var í ágúst. 

Félagið býst þar með við að verða fyrsta stóra evrópska flugfélagið til að endurheimta sama farþegafjölda og áður en faraldurinn brast á. Félagið flutti um 2,9 milljónir farþega á síðasta fjórðungi sem er um fjórfalt meira en það gerði á sama tímabili í fyrra. 

Félagið hefur ráðið inn 600 manns til að sinna eftirspurn en félagið þurfti að segja upp um þúsund manns í apríl í fyrra þegar að ljóst var í hvað stefndi.

Wizz Air er ekki eina flugfélagið til að sækja í sig veðrið í sumartörninni. Breska lággjaldaflugfélagið easyJet segir að í sumar verði sætanýting um 60% af því sem hún var áður en faraldurinn skall á.

Þá hefur Ryanair sagt að fjöldi farþega á þessu reikningsári, sem hófst í lok mars, verði um 100 milljónir manna miðað við 27,5 milljónir á síðasta reikningsári. Áður en faraldurinn brast á flutti félagið um 150 milljónir manna. 

Wizz Air hefur um nokkurt skeið flogið til Íslands en félagið flýgur til landsins frá Austurríki, Ungverjalandi, Ítalíu, Þýskalandi, Póllandi og Lettlandi. 

Stikkorð: Wizz Air