Vísbendingar eru um að auðugir Rússar og Úkraínumenn séu að flytja fjármagn frá heimalöndum sínum og festi það í fasteignum í London í Bretlandi. Í umfjöllun breska dagblaðsins Financial Times um málið segir að með fasteignakaupunum leiti auðkýfingarnir öðru fremur eftir því að fela auð sinn fyrir þeim sem vilji beita Rússa og Úkraínumenn refsiaðgerðum vegna innlimunar Krímskaga í Rússland.

Rússar keyptu fasteignir í London fyrir 180 milljónir punda, jafnvirði 33,8 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári. Búist er við að viðskiptin verði talsvert meiri á þessu ári.

Blaðið hefur eftir fasteignasala hjá bresku fasteignasölunni JLL að hann geri ráð fyrir því að fasteignakaup auðmanna frá Rússlandi verði fjórfalt meiri á þessu ári en í fyrra.