Gert er ráð fyrir því að flugfargjöld muni hækka talsvert í næsta mánuði ásamt verðhækkunum á vetrarfatnaði. Þegar hefur verið tilkynnt að verð á mjólk og mjólkurvörum muni hækka um 3,1%. Greining Íslandsbanka segir þetta leiða til 0,9% hækkunar á vísitölu neysluverðs á síðustu þremur mánuðum ársins og að verðbólga verði að jafnaði 4,1% á fjórðungnum.

Hagstofan birti verðbólgutölur í morgun. Samkvæmt þeim fór verðbólga úr 4,3% í 3,9% nú.

Greiningardeild segir í Morgunkorni sínu í dag að þetta sé í samræmi við spá Seðlabankans frá í ágúst. Á hinn bóginn telur deildin það velta svo að miklu leyti á þáttum á borð við útkomu kjarasamninga í árslok, gengisþróun krónu í vetur og útfærslu á skuldaniðurfærslu ríkisstjórnarinnar hvernig verðbólguþróunin verði í kjölfarið.

„Við gerum þó í grunninn ráð fyrir að verðbólga haldist á svipuðum nótum á næsta ári, og verði rétt um 4% í lok þess árs,“ segir Greining Íslandsbanka.