Meirihluti forsvarsmanna ferðaþjónustufyrirtækja býst við að þurfa að bregðast við með uppsögnum eða verðhækkunum ef farið verður að kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar samkvæmt könnun sem KPMG gerði meðal aðildarfélaga Samtaka ferðaþjónustunnar og Íslenska ferðaklasans dagana 9.- 28. janúar.

„Þessi könnun sýnir að ferðaþjónustuaðilar eru að horfa inn í kólnun hagkerfisins og sjá það á sínum rekstri að það eru líkur á að það verði minna umleikis í þessari grein á þessu ári og það verði erfiðari rekstrarskilyrði. Því miður þýðir það að þau munu þurfa að hagræða. Mörg fyrirtæki eru byrjuð á því nú þegar og sjá fyrir sér að það þurfi að hagræða enn meira. Ef það verða miklar kostnaðarhækkanir þá munu þau segja upp fólki og hagræða eins og kostur er,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Hann leggur áherslu á að könnunin var gerð í janúar, áður en verkalýðshreyfingin boðaði verkfallsaðgerðir í ferðaþjónustunni. 200 ferðaþjónustufyrirtæki, á flestum sviðum greinarinnar, svöruðu könnuninni. 63% svarenda telja líklegt eða mjög líklegt að þurfa að bregðast við komandi kjarasamningum með hagræðingaraðgerðum, 15% telja ólíklegt eða mjög ólíklegt að þau þurfi að hagræða í rekstrinum í kjölfar kjarasamninga og 20% segjast hlutlaus. Hins vegar sögðu 87% þeirra sem svöruðu könnuninni að það þyrfti að bregðast við með aðgerðum verði gengið að kröfugerðum stéttarfélaganna í kjaraviðræðunum. Þar nefndu flestir að fækka starfsfólki eða 35%. Næstflestir eða 22% nefndu að þau þyrftu að hækka verð á vöru og þjónustu. Þá telja 9% sennilegt að þau muni bregðast við með sameiningu við önnur fyrirtæki í ferðaþjónustunni en 21% nefnir aðrar hagræðingaraðgerðir.

„Ég legg áherslu á að þessi könnun er tekin áður en allar verkfallsaðgerðir eru boðaðar þannig að þetta eru ekki viðbrögð við því. Þetta   er könnun meðal allra félagsmanna, ekki bara þeirra sem eiga aðgerðir yfir höfði sér,“ segir hann.

© vb.is (vb.is)

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .