Félagið ÁKM slf. í eigu hjónanna Bubba Mortens og Hrafnhildar Hafsteinsdóttur skilaði mestum hagnaði samlags- og sameignarfélaga á sviði lista og fjölmiðlunar á síðasta ári samkvæmt samantekt Viðskiptablaðsins.

Áætlaður hagnaður ÁKM eftir skatta nam um 38 milljónum króna í fyrra og var launakostnaður félagsins um tíu milljónir króna á árinu.

Viðskiptablaðið hefur tekið saman áætlaða afkomu og launagreiðslur ríflega 350 afkomuhæstu samlags- og sameignarfélaganna á síðasta ári og flokkað í 9 atvinnugreinaflokka byggt á álögðum tekjuskatti og tryggingagjaldi samkvæmt álagningarskrá lögaðila sem Skatturinn birti í síðustu viku.

Taka skal fram að í úttekt Viðskiptablaðsins er ekki tekið tillit til yfirfæranlegs taps frá fyrri árum – sem draga má frá skattstofni – né lægra skatthlutfalli tekna af arðgreiðslum, enda liggja upplýsingar um slíkt ekki fyrir.

Úttekt um málið verður að finna í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.