Bubbi Morthens heldur stórtónleika í Danmörku næsta haust í samvinnu við Iceland Express. Tónleikarnir verða haldnir 18. október í Falconersalen, sem er 2.200 manna tónleikasalur á Frederiksberg í Kaupmannahöfn. Þar mun Bubbi troða upp ásamt fleiri listamönnum.

„Bubbi hefur mikil tengsl við Danmörku, en eins og kunnugt er var móðir hans dönsk. Bubbi hefur ósjaldan spilað á danskri grund en tónleikarnir í haust verða hins vegar langstærstu tónleikar hans þar í landi,“ segir í fréttatilkynningu frá Iceland Express.

„Þetta verður rosalegt gigg. Salurinn er einn sá flottasti í Danmörku og ég hlakka til að spila fyrir alla þá Íslendinga sem búa þar í landi og eins að fá fólk að heiman með mér í góða helgarferð til Köben,“ segir Bubbi.