Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra tókst að sannfæra Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) um að veita Íslandi fyrirgreiðslu í tengslum við efnahagsáætlun Íslands og AGS án þess að settur yrðu fyrirvari um lausn Icesave-deilunnar. Þetta sagði Lee Buchheit, formaður samninganefndar Íslands, á málfundi í Háskóla Íslands í dag.

Buchheit sagði að framganga Steingríms hafi skipt sköpum í ferlinu. Hann sagði að hann hafi í gegnum tíðina unnið með mörgum ráðamönnum á heimsvísu en að framganga Steingríms, þar sem honum tókst að snúa skoðun AGS á fundi í Washington, hafi verið með þeim betri sem hann hafi séð.

Þá sagði Buchheit að réttaróvissa í málinu um lagalega skyldu ríkisins til að greiða erlendum innstæðueigendum hefði  hjálpað samninganefndinni. Hann telur að ef málið fari fyrir dómstóla og dæmt verði Bretum og Hollendingum í vil að þá verði afar erfitt fyrir Íslendinga að semja um málið að nýju. Hann sagði ljóst að ekki yrði um annað að ræða en að samið yrði um greiðslur ef Bretar og Hollendingar vinni slíkt mál, þar sem Ísland geti með engu móti reitt fram svo háa upphæð í einu lagi.

Buchet telur að helmingslíkur séu á að Íslandi yrði gert að greiða Bretum og Hollendingum að fullu.