Fjöldi kvenna og karla var samankominn í Ráðhúsi Reykjavíkur við árlega viðurkenningarathöfn Félags kvenna í atvinnurekstri. Erla Wigelund, stofnandi og eigandi Verðlistans, sem hlaut þakkarviðurkenningu FKA stal senunni enda búðarkona af lífi og sál.

Þrátt fyrir að Erla sé orðin 83 ára er engan bilbug á henni að finna. Hún segist alltaf taka „fyrri vaktina“ í versluninni og byrja hvern dag á því að snyrta til fyrir framan búðina, sópa á sumrin og moka snjó á veturna. „Ég moka reyndar ekki bílastæðin,“ segir hún.

Síðdegis sinnir Erla skrifstofustörfunum, borgar reikninga, sér um markaðsmálin og allar erlendar bréfaskriftir enda telur hún það afar mikilvægt að mynda persónuleg tengsl við erlendu birgjana jafnt sem viðskiptavini sína. Erla hefur gegnum tíðina marga fjöruna sopið í viðskiptum, stýrt fyrirtæki sínu í gegnum óðaverðbólgu, gjaldeyrishöft og ótal gengisfellingar.

„Ég er þrjóskari en allt sem þrjóskt er og það hefur bara aldrei komið til greina að gefast upp. Það er svo auðvelt. Sigurinn liggur í að leysa málin.“

Það vefst heldur ekki fyrir henni hvað helst beri að varast í viðskiptum. „Græðgi, hún er viðbjóður og vágestur í öllum mannlegum samskiptum. Markmiðið á að vera að standa í skilum, hafa í sig og á og geta sofnað á kvöldin áhyggjulaus og sáttur við eigin samvisku. Þetta er ekkert flóknara en það.“

Hér að neðan má sjá myndir frá verðlaunaafhendingunni.

FKA - Verðlaun 2012, Erla Wigelund
FKA - Verðlaun 2012, Erla Wigelund
© BIG (VB MYND/BIG)

Þakkarviðurkenningu FKA hlaut Erla Wigelund, stofnandi og eigandi Verðlistans. Bernskudraumur Erlu Wigelund um að verða búðarkona rættist árið 1965 þegar hún opnaði verslunina Verðlistann við Laugalæk í Reykjavík, þar sem hún er enn til húsa.

FKA - Verðlaun 2012, Rannveig Grétarsdóttir
FKA - Verðlaun 2012, Rannveig Grétarsdóttir
© BIG (VB MYND/BIG)

FKA viðurkenninguna 2012 hlaut Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri og einn stofnenda hvalaskoðunarfyrirtækisins Hvalaskoðun Reykjavík, sem er þó betur þekkt undir nafninu Elding. Rannveig hafði aldrei leitt hugann að hvalaskoðun þegar faðir hennar hringdi í hana í hádeginu einn daginn og bauð henni í bíltúr suður með sjó. Þar sá hún skipið Eldingu í fyrsta sinn og einhvers staðar á Reykjanesbrautinni ákváðu þau feðgin að stofna hvalaskoðunarfyrirtæki.

FKA - Verðlaun 2012, Inga Björg Hjaltadóttir, Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, Árný Elíasdóttir
FKA - Verðlaun 2012, Inga Björg Hjaltadóttir, Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, Árný Elíasdóttir
© BIG (VB MYND/BIG)

Hvatningarviðurkenningu FKA hlutu þær Árný Elíasdóttir, Inga Björg Hjaltadóttir og Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, stofnendur og eigendur Attentus ehf. Attentus veitir fyrirtækjum alhliða ráðgjöf í mannauðs- og fræðslumálum, býður upp á aðstoð við stefnumótun, þjálfun nýliða, stjórnendaráðgjöf, mat og þjálfun, vinnustaðagreiningar og áreiðanleikakannanir á sviði mannauðsmála, svo eitthvað sé nefnt.


FKA - Verðlaun 2012, Oddný Harðardóttir
FKA - Verðlaun 2012, Oddný Harðardóttir
© BIG (VB MYND/BIG)

Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra ávarpaði gesti og afhenti viðurkenningarnar.

FKA - Verðlaun 2012
FKA - Verðlaun 2012
© BIG (VB MYND/BIG)

Hafdís Jónsdóttir, betur þekkt sem Dísa í World Class, formaður FKA, ávarpar gesti.