Hinn 1. júní sl. tóku gildi lög sem m.a. leiddu til lækkunar á tóbaksgjaldi, áfengisgjaldi, bensín- og olíugjaldi. Um er að ræða gjöld sem ríkið leggur á ákveðna vöruflokka, og eru innifalin í vöruverði ákveðinna neysluvara. Neytendasamtökin gerðu athugun að verðlækkun í kjölfar þess en aðeins tveir af þeim tíu aðilum sem þeir spurðu höfðu lækkað verð á sígarettupökkum á sama tíma og verðlækkun ÁTVR átti sér stað. Þetta kemur fram í frétt á vef Neytendasamtakana .

Í kjölfar þess að lögin tóku gildi 1. júní hafði útsöluverð ÁTVR á algengustu tegundum sígarettupakka til smásala lækkað um 6,5 kr. Þó að ekki sé um háa upphæð að ræða felur það þó í sér að hafi verð til neytenda ekki verið lækkað í kjölfarið hefur álagning smásala einfaldlega hækkað.

Neytendasamtökin gerðu könnun á því hvort verð á sígarettupökkum til neytenda hefði lækkað í kjölfarið. Samtökin sendu fyrirspurn til 10-11, Aktu taktu, Fjarðarkaups, Hagkaupa, Iceland, Krónunnar, N1, Nóatúns, Olís, Samkaupa og Skeljungs. Spurt var hvert verð sígarettupakka hefði verið annars vegar 15. maí og hins vegar 1. júlí, og hvort, og þá að hvaða marki verð hefði lækkað í kjölfar gildistöku umræddra laga. Svör bárust innan tilskilins frests frá öllum aðilum nema Samkaupum.

Þrír þessara aðila, Hagkaup, N1 og Olís, virtust ekki hafa vitað af umræddri lagabreytingu og verðlækkun, allir þessir aðilar fögnuðu þó erindi samtakanna og lækkuðu verð í kjölfarið, Olís um 5 kr. en Hagkaup og N1 um 10 kr.

Fimm aðilar, 10-11, Aktu taktu, Fjarðarkaup, Iceland og Skeljungur, höfðu ekki lækkað útsöluverð á sígarettum, og virtust þeir ekki hafa það í huga. Þó er rétt að benda á að Fjarðarkaup og Iceland virðast heldur ekki hafa hækkað verð í tengslum við hækkun á tóbaksgjaldi um síðustu áramót. Hins vegar skiluðu hinir þrír smásalarnir þeirri hækkun samviskusamlega til neytenda.

Tveir smásalar, Nóatún og Krónan, svöruðu því til að þeir hefðu lækkað verð í tengslum við lagabreytinguna, og nam lækkunin 9-25 kr. hjá Nóatúni en 10-25 kr. hjá Krónunni.

Samkvæmt athugun Neytendasamtakanna voru því aðeins tveir aðilar af þeim tíu sem svöruðu sem lækkuðu verð á sama tíma og verðlækkun ÁTVR átti sér stað.