Hagstofa Íslands birti nýlega tölur um búferlaflutninga á þriðja fjórðungi í ár. Þær tölur gefa tilefni til að breyta mati ráðuneytisins á heildartölum fyrir árið nokkuð en löng reynsla er fyrir því að búferlaflutningar eru sveiflum háðir. Að því er varðar flutninga fólks milli landa virðist svo að allir straumar í þeim efnum séu vaxandi. Ekki eru umtalsverðar breytingar að því er varðar íslenska ríkisborgara.

Aðfluttum frá útlöndum hefur fjölgað um 18% frá fyrra ári þegar horft er til fyrstu þriggja fjórðunga ársins samanborið við sama tímabil í fyrra meðan brottfluttum hefur fjölgað um 7%. Mismunurinn stefnir í að verða sá sami og áætlað var í nýjustu spá ráðuneytisins en þar var áætlað að 400 fleiri Íslendingar muni flytjast frá landinu en aftur heim á þessu ári. Hins vegar eru aðfluttir erlendir ríkisborgarar orðnir meira en helmingi fleiri það sem af er ári en var í fyrra og brottfluttir eru orðnir 88% fleiri en var fyrstu þrjá ársfjórðunga síðasta árs. Þess er nú greinilega farið að gæta að skráning erlendra starfsmanna við Kárahnjúka hefur breyst og það hefur áhrif á flutningana í báðar áttir og benda tölurnar til þess að margir dvelji stutt hérlendis.

Þetta er breyting frá því sem verið hefur undanfarin ár. Flutningar fólks
utan EES-svæðisins hafa verið mjög í eina átt meðan flutningar fólks milli
landa innan svæðisins hafa verið í báðar áttir. Að svo komnu máli er niðurstaðan sú að erlendum ríkisborgurum muni fjölga um 1.000 á þessu ári vegna búferlaflutninga milli landa og að samtals muni búferlaflutningar milli landa bæta 600 manns við íbúafjöldann en þessi tala var 1.500 í haustspánni.

Þegar þrír fjórðungar voru liðnir af árinu höfðu heldur fleiri flutt af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins en á sama tímabili í fyrra. Munar þar um 5%. Hins vegar voru flutningar fólks af höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar rúmlega 2% minni en á sama tímabili árið á undan. Innanlandsflutningar eru jafnan mestir á þriðja fjórðungi og því munar mest um hann. Mismunur aðfluttra og brottfluttra gagnvart höfuðborgarsvæðinu var orðinn sá sami eftir þrjá fjórðunga og hann var allt árið í fyrra. Ef svo heldur sem horfir munu um 800 fleiri flytjist til höfuðborgarsvæðisins innanlands en frá því, um 100 fleiri en reiknað var með í síðustu spá. Í búferlaflutningum milli landa hefur höfuðborgarsvæðið
tapað 235 brottfluttum umfram aðflutta á fyrstu þremur
ársfjórðungunum meðan landsbyggðin hefur fengið 641 fleiri frá útlöndum en
þangað hafa farið.

Byggt á vefriti Fjármálaráðuneytisins.