Fjárfestirinn Warren Buffet hefur ýtt frekar undir vangaveltur þess efnis að hann muni nú horfa til breskra fyrirtækja. Hann sagði í gær að hann horfði nú í auknum mæli til evrópska félaga hvað varðar frekari fjárfestingar.

Fram kemur í frétt BBC að fyrirtæki í eigu fjölskyldna á meginlandi Evrópu séu í forgangi hjá Buffet. Einnig er mikilvægt að ný fyrirtæki í samstæðu Buffet, Berkshire-Hathaway, hafi tekjur í evrum eða pundum. Buffet sagði á aðalfundi félags síns að hann sæi fyrir sér að dollarinn myndi falla meira í verði á næstu árum.

Buffet mun ferðast víða um Evrópu síðar í þessum mánuði og hitta forsvarsmenn fyrirtækja sem hann hyggur hugsanlega á kaup á. Hann hyggst meðal annars ferðast til Ítalíu, Spánar, Þýskalands og Sviss.