Bandaríska fjárfestingarfélagið Berkshire Hathaway, sem milljarðamæringurinn Warren Buffett hefur stýrt um áratugaskeið, hefur keypt hlu í olíufélaginu Exxon Mobil Corp, einu stærsta olíufélagi í heimi. Markaðsverðmæti hlutarins nemur 3,7 milljörðum dala, jafnvirði tæpra 450 milljarða íslenskra króna.

Bloomberg-fréttastofan segir Buffett hafa fylgst grannt með þróun hlutabréfmarkaða og verðlagningu fyrirtækja eftir að kreppan skall á og keypt hluti í félögum sem hann telur undirverðlögð. Kaup í félögum telur hann álitlegri fjárfestingarkost en kaup á skuldabréfum, að sögn Bloomberg sem bendir á að BUffett hafi keypt hlut í Exxon Mobil fyrir tveimur árum. Berkshire Hathaway hafi uppskorið ríkulega á uppsveiflunni á hlutabréfamörkuðum á árinu.

Gengi hlutabréfa Exxon Mobil hefur hækkað um 10% það sem af er ári.