Heildartekjur Warrens Buffet í fyrra námu 62,8 milljónum dala eða um 7,3 milljörðum íslenskra króna í fyrra. Þetta kom fram í frétt AP-fréttastofunnar sem komst yfir bréf sem Buffet sendi til repúblikans Tim Huelskamp en þeir tveir hafa að undanförnu deilt um skattlagningu hinna ríku í Bandaríkjunum.

Buffet hefur sem kunnugt er verið ófeiminn við að lýsa þeirri skoðun sinni að hann og aðrir vellauðugir Bandaríkjamenn eigi að greiða hærri skatta. Af þessum tæpu 63 milljónum dala greiddi Buffet aðeins um 6,9 milljónir dala (800 milljónir króna) í skatt eða um 11% af heild en liðlega 17% af skattskyldum tekjum .

Í september voru auðæfi Buffets talin nema um 50 milljörðum dala og samkvæmt því var hann þriðji ríkasti maður heimsins á eftir Carlos Slim Helu í Mexíkó og Bill Gates.

Warren Buffett.
Warren Buffett.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)