Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffet, hefur hagnast um 124 milljarða dollara eða um 16 þúsund milljarða króna á fjárfestingu sinni í tæknirisanum Apple. Þetta kemur fram í frétt hjá CNBC .

Berkshire keypti 5% hlut í Apple á árinu 2018 fyrir 36 milljarða dollara, en hlutur félagsins er nú metinn á 160 milljarða dollara og hefur Buffet því hagnast á fjárfestingunni sem nemur fyrrnefndri upphæð. Til viðbótar hefur félag Buffet fengið reglulegar arðgreiðslur frá Apple sem nema um 775 milljónum dala árlega. Tæknirisinn braut nýverið þriggja billjóna dollara ($3 trillion) múrinn, fyrstur skráðra félaga, en Viðskiptablaðið greindi frá því á dögunum. Gengi hlutabréfa félagsins hefur þrefaldast frá upphafi faraldursins.

Hlutur Berkshire í Apple nemur nú 40% af eignasafni félagsins og segir Buffet hlutabréfakaup í Apple vera bestu mögulegu fjárfestingu sem hægt er að hugsa sér. Hann bætir við að iPhone sé svokölluð „sticky" vara og að hún haldi fólki innan vistkerfis Apple.

Hlutur Berkshire í Apple hefur spilað lykilhlutverk í að hjálpa félaginu að viðhalda vexti í gegnum Covid-19 faraldurinn, en aðrar stórar fjárfestingar félagsins urðu fyrir höggi í faraldrinum, þ.á.m. fjárfestingar í orkugeiranum og í tryggingastarfsemi, að því er fram kemur í frétt CNBC.