Einn ríkasti maður heims, Warren Buffett, hefur hætt sem stjórnarmaður í góðgersamtökum Gates-hjónanna, the Bill & Melinda Gates Foundation, en umrót hefur verið í samtökunum í kjölfar tilkynninga um skilnað þeirra hjóna. Fortune greinir frá.

Sjá einnig: Bill og Melinda Gates að skilja

Buffett var einn af þremur stjórnarmönnum samtakanna ásamt þeim hjónum en samkvæmt tilkynningu frá honum sjálfum var hann óvirkur stjórnarmeðlimur og tók ekki ákvarðanir um hvernig auði sjóðsins skyldi deilt. Hann situr nú aðeins í stjórn félags síns, Berkshire Hathaway.

Buffett, sem er metinn á rúma 100 milljarða dollara, hefur gefið meira en 27 milljarða dollara af auði sínum til samtakanna undanfarin 15 ár. Þá hefur hann gefið um helming hlutabréfa sinna í Berkshire Hathaway til góðgerðamála. Hann hefur áður sagt að hann ætli að gefa allan hlut sinn í félaginu til góðgerðarmála.

Sjá einnig: Auður Buffett yfir hundrað milljarða dala

Þá hefur forstjóri samtakanna, Mark Suzman, sagt að hann sé í viðræðum um að tryggja langtíma sjálfbærni samtakanna. Bæði Bill og Melinda hafa ítrekað að þau muni áfram taka þátt í að starfa fyrir og styðja við samtökin þrátt fyrir skilnaðinn.