Milljarðamæringurinn Warren Buffet sætir nú rannsókn aðalsaksóknara Connecticut-fylkis. Buffet hefur nýlega sett á fót skuldatryggingafélag með áherslu á skuldabréf útgefin af sveitarfélögum, en eignahald fjárfestingafélags hans Berkshire-Hathaway á 20% hlut í matsfyrirtækinu Moody's þykir óheppilegt samtímis rekstri skuldatryggingafélags. Bloomberg greinir frá þessu í dag.

Aðalsaksóknararinn segir augljósa hagsmunaáreksta á ferðinni, í ljósi þessi hversu stóran hluta Berkshire á í Moody's.

Í síðustu viku gaf Moody's hinu nýstofnaða tryggingafélagi toppeinkunn, en flest tryggingafélög af þessari gerð hafa átt í vandræðum með að halda í AAA lánshæfiseinkunn sína. Félög á borð við MBIA og Ambac eiga nú yfir höfði sér lækkun á lánshæfismati sínu, en góð lánshæfiseinkunn er ein grundvallarforsenda trúverðugleika skuldatryggjenda.