Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Bandaríkjunum í dag en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má helst rekja lækkanir dagsins til ummæla Warren Buffet um að efnahagskerfi Bandaríkjanna hefði „fallið af háu bjargi“ sem fór líka svona misvel í fjárfesta.

Buffet er ríkasti maður heims og talinn með vitrari mönnum þegar kemur að fjárfestingum. Orð hans vega oftar en ekki þungt í fjármálalífinu þar vestra og ummæli hans í dag þykja gefa til kynna að ekki sjáist brátt til sólar í fjármálakerfinu sem, eins og gefur að skilja, veldur fjárfestum nokkrum áhyggjum.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 2% í dag, Dow Jones um 1,2% og S&P 500 lækkaði um 1% eftir mikla rússíbanaferð í dag. Mest hækkaði vísitalan um 1,7% en hafði um tíma lækkað um 1,5% í dag. Þá fór hún 25 sinnum yfir (eða undir) núllið í dag.

Á meðan bankar og fjármálafyrirtæki hækkuðu í dag voru það helst tækni- og fjarskiptafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins.

Þannig lækkaði Hewlett-Packard um 5,1% í dag eftir að Merrill Lynch mælti með sölu á hlutabréfum í félaginu og fjarskiptafélagið Verizon lækkaði um 4%.

Sem fyrr segir sagði Warren Buffet að bandarísk efnahagslífi hefði fallið af háu bjargi og hann telur að björgunaraðgerðir yfirvalda muni einungis leiða til frekari verðbólgu en gera lítið gagn til langs tíma litið. Þetta sagði hann í viðtali við CNBC aðspurður um aðstæður á mörkuðum.

Eins og fyrr segir hækkuðu fjármálafyrirtæki nokkuð í dag en náðu þó ekki að koma í veg fyrir lækkun markaða. Bank of America hækkaði um heil 19% eftir að fjölmiðlar greindu frá því að bankinn væri á lokastigum þess að selja frá sér 8,5 milljarða dala pakka fullum að svokölluðum eitruðum veðum til yfirvalda en eins og áður hefur komið fram hefur bandaríski seðlabankinn í samstarfi við fjármálaráðuneytið þar vesta sett af stað sjóð sem ætlað er að taka yfir slík veð.

Þá hækkaði Wells Fargo, hinn stóri bankinn, um 16% en Buffet sagði í fyrrnefndu viðtali að rekstur bankanna í hinu nýja umhverfi væri til fyrirmyndar og ef þannig yrði áfram væru þeir í góðum málum.

Hráolíuverð hækkaði í dag sem síðan leiddi til hækkunar olíu- og orkufélaga. Við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 47,2 dali og hafði þá hækkað um 3,7% frá opnun.