Hlutabréf hækkuðu í Bandaríkjunum annan daginn í röð og í þetta skiptið voru það fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkunina, en í gær voru nokkrar lækkanir á þeim geira. Hækkun dagsins má rekja til væntinga til þess að fjárfestirinn og milljarðamæringurinn Warren Buffet muni hjálpa til við að róa fjármálamarkaði með því að gangast í ábyrgð fyrir skuldabréf útgefin af sveitarfélögum.

Standard & Poor's hækkaði um 0,73%, Dow Jones vísitalan hækkaði um 1,09%, en Nasdaq-vísitalan lækkaði um 0,02%. Lækkunina má samkvæmt Bloomberg fyrst og fremst rekja til þess að fjárfestingarbankinn JP Morgan Chase greindi frá því að Baidu.com Inc, eigandi vinsælustu leitarvélar Kína, mætti við búast við lítilli sem engri hagnaðaraukningu.

Citigroup og Bank of America hækkuðu allra fyrirtækja mest, strax í kjölfar yfirlýsinga Buffet. Verð á bandarískum ríkisskuldabréfum í langa endanum lækkuðu talsvert við yfirlýsingar milljarðamæringsins.

Olíuverð lækkaði lítillega og stóð tunnan í 92,86 dollurum við lokun markaða. Gullverð féll að sama skapi.