*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 2. júlí 2020 13:21

Buffett blekktur í 120 milljarða kaupum

Berkshire Hathaway keypti félag fyrir um 120 milljarða króna en virði félagsins reyndist svo um fimmtungur kaupverðsins.

Ritstjórn
Warren Buffett er 4. ríkasta manneskja heims en hann verður 90 ára gamall síðar í sumar.

Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffet keypti nýverið þýska fyrirtækið Wilhelm Schulz. Kaupverðið nam um 870 milljónir dollara, um 120 milljarða íslenskra króna, en félagið reyndist síðan nær gjaldþroti enda hafði sölutölum félagsins verið hagrætt með sviksamlegum hætti.

Það var starfsmaður Wilhelm Schulz sem ljóstraði um málið í pósti til Hathaway þess efnis að félagið hafi hagrætt sölutölum sínum. Við nánari athugun reynist virði félagsins um fimmtungur af söluverði þess, eða um 24 milljarðar króna.

„Gögnin benda sterklega til þess að um er að ræða svik,“ kemur fram í máli gerðardóms. Frá þessu er greint á vef New York Times.

Illa hefur árað hjá Berkshire Hathaway það sem af er árs, en félagið tapaði um 50 milljörðum dollara á fyrsta ársfjórðungi 2020. Bréf félagsins hafa lækkað um tæplega 22% á þessu ári.