Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag bandaríska fjárfestisins Warren Buffett, hefur náð samkomulag um 10 milljarða dollara kaup á jarðgasflutnings-starfsemi Dominion Energy. Kaupin marka fyrstu stóru viðskipti hjá Berkshire Hathaway frá því að núverandi efnahagsástand vegna Covid-veirunnar hófst.

Kaupsamningurinn þýðir einnig að Berkshire Hathaway er að bæta við sig í jarðefnaeldsneytisgeiranum (e. fossil fuel sector) en félagið fjárfesti um 10 milljarða dollara í fyrra til að aðstoða Occidental Petroleum við kaup á Anadarko.

Berkshire Hathaway Energy, dótturfélag BH með um 100 milljarða dollara eignasafn, eignast nú tæplega 12.900 km. leiðslur fyrir jarðgas og um 21 milljarða rúmfeta daglega flutningsgetu.

„Við erum mjög stolt af því að bæta við svona frábæru eignasafni af jarðgaseignum í þegar sterka orkustarfsemina okkar,“ er haft eftir Buffett í frétt Financial Times .

Dominion Energy hafði áætlað að leggja 965 km. (600 mílu) leiðslu frá Vestur-Virginía til Norður-Karólínu sem átti að flytja 1,5 milljarða rúmfet af gasi daglega. Fyrirtækið hefur nú hætt við þessi áform, þrátt fyrir að Hæstiréttur Bandaríkjanna samþykkti verkefnið í síðasta mánuði. Frestanir og erfiðleikar í dómstólum hafa leitt til rúmlega átta milljarða dollara kostnaðar.