Hinn heimsfrægi fjárfestir Warren Buffett er að ganga í gegnum öldudal í fjárfestingum. Undanfarinn áratug hefur ávöxtun af fjárfestingafélagi hans, Berkshire Hathaway, verið lægri en af S&P 500 hlutabréfavísitölunni. Þetta er það lengsta tímabilið á hans ferli þar sem Berkshire nær ekki betri ávöxtun en S&P 500 vísitalan. Sé horft yfir lengra tímabil, eða síðustu 54 ár er ávöxtun Berkshire þó 2,5 milljón prósentustigum umfram vísitöluna.

Fjárfestir sem hefði lagt dollar í Berkshire fyrir áratug ætti nú 2,4 dollara en sá sem hefði fjárfest í S&P 500 vísitölusjóði ætti 3,5 dollara að því er fram kemur í viðtali Financial Times við Buffett. Án þess að blikka segir að sennilega muni ávöxtun til lengri tíma vera áþekk hjá S&P 500 vísitölusjóði og Berkshire sem kann að koma mörgum á óvart. Hann segir að sennilega muni fjárfestir þó læra meira af því að eiga hlut í Berkshire en að kaupa í vísitölusjóði.

12 milljarðar bætast við á viku

Buffett er orðinn 88 ára og er þriðji ríkasti maður heims eftir ævintýralegan árangur af fjárfestingum síðustu áratugi. Vegna þess árangurs á Berkshire nú erfitt með að finna réttu fjárfestingatækifærin til að ávaxta allt það fé sem flæðir inn í hirslur félagsins. Um 100 milljón dollarar, sem samsvarar um 12 milljörðum króna bætast við á í reiðufé í bankareikninga Berkshire í hverri viku í formi vaxtagreiðslna og arðgreiðslna af fjárfestingum.

Eignir félagsins nema 700 milljörðum dollara og þar af nemur reiðufé og áþekkar eignir um 112 milljörðum dollara. FT bendir á að fjárfestingar þurfi helst að vera mjög stórar til að skipta einhverju máli. Í raun séu einungis um 100 skráð fyrirtæki sem félagið geti keypt í sem muni séu nógu stór til að hafa veruleg áhrif á afkomu félagsins. Buffett segir að með einungis eina milljón dollara í farteskinu gæti hann sennilega náð nærri 50% ávöxtun en það hafi orðið mun erfiðara eftir því sem félagið stækkaði. Hann bendir á að jafnvel þó félagið fjárfesti í verkefni fyrir milljarð dollara sé það einungis um 0,1% af heildarstærð Berkshire.

Ekki allar fjárfestingar gengið upp

Samkeppnin frá framtakssjóðum hefur aukist síðustu ár. Buffett telur að slíkir sjóðir hafi úr um 1.200 milljörðum dollara að ráða í gegnum hlutafjárloforð og þá tölu megi tvöfalda með skuldsetningu. Berkshire hafi því orðið að sætta sig við að missa af fyrirtækjum fremur en að yfirbjóða slíka sjóði.

Þá hafa þær fjárfestingar sem fyrirtækið hefur staðið að ekki allar gengið upp. Félagið hefur til að mynda þurft að færa niður fjárfestingu sína í Kraft Heinz um þrjá milljarða dollara eftir að í ljós kom að reksturinn hafi ekki gengið sem skyldi.

Skoðar aukin endurkaup

Félagið hefur markað sér þá stefnu að greiða ekki út arð heldur ávaxta fremur því fé sem bætist við. Buffett útilokar þó ekki að Berkshire muni kaupa hlutabréf af hluthöfum sínum í meira mæli en það hefur gert hingað til.