Fyrirtækið Berkshire Hathaway, sem er í eigu fjárfestisins Warren Buffett, hefur lagt inn pöntun upp á 425 einkaþotur. Verðmæti pöntunarinnar er talið vera um 9,6 milljarðar dollara samkvæmt frétt Bloomberg um málið.

Um er að ræða stærstu pöntun á einkaþotum fyrr og síðar. Pöntunin er ætluð fyrir rekstur fyrirtækisins Net Jets, sem leigir út einkaþotur. 275 þotur hafa verið pantaðar frá Bombardier framleiðandanum og eru af gerðinni Challenger. Hinar 150 þoturnar sem upp á vantar koma frá Cessna og eru af gerðinni Citation Latitude. Afhendingar á Bombardier þotunum hefjast á árinu 2014 en Cessna vélarnar verða afhentar frá og með árinu 2016.