Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffetts, hefur áhuga á að kaupa hluta tryggingarisans AIG sem bjargað var af stjórnvöldum á dögunum. Buffett sagðist í sjónvarpsviðtali hafa haft áhuga á einum eða tveimur deildum AIG. Hins vegar hafi aðstæður verið með þeim hætti undanfarið að ekki hafi orðið af kaupunum.

„Meirihluti þeirra deilda AIG sem ég hef áhuga á verður til sölu næstu 1-2 ár,“ sagði Buffett.

AIG skrifaði í síðustu viku undir samning um 85 milljarða dala lán frá bandaríska Seðlabankanum, en samkvæmt skilmálum samningsins eignast ríkið þá 79,9% hlut í félaginu. Forstjóri félagsins, Edward Liddy, segir að AIG muni reyna að selja eignir á næstu 2 árum til að borga af láninu.

Þetta kemur fram í frétt Reuters.