Undanfarin misseri hafa margir hagfræðingar lýst yfir mikilli hættu á stöðnun í hagvexti vegna minnkandi eftirspurnar. Vilja þeir meina að það sé ekki nógu mikil eftirspurn í Bandaríkjunum eða hagkerfum heimsins til að styðja meiri hagvöxt en 2% á ári. Undanfarin 40 ár hefur hagvöxtur í Bandaríkjunum oft verið talsvert meiri en það.

Fjárfestirinn Warren Buffett segir hagfræðinga þó hafa allt of miklar áhyggjur og telur að 2% hagvöxtur sé ekki vandamál. Þetta kemur fram í nýjasta árlega bréfi hans til hluthafa Berkshire Hathaway þar sem hann greinir aðstæður.

„Einhverjir sérfræðingar bölva 2% hagvexti okkar að raunvirði og auðvitað myndum við öll vilja sjá hann hærri. En við getum gert einfalda stærðfræði á þessum 2% hagvexti og sýnt að ábatinn er gríðarlegur,“ skrifar Buffett meðal annars.

Millistéttin lifir betur en Rockafeller

Bendir hann á að fólksfjölgun í Bandaríkjunum sé 0,8% á ári sem þýðir að hagvöxtur á mann sé u.þ.b. 1,2%. Það hljómi ekki eins og mikið en á 25 árum þýði það samt 34,4% hagvöxt á mann að raunvirði. Það muni skila sér í 19.000 dollara aukningu á mann í landsframleiðslu fyrir næstu kynslóð og sé henni jafn dreift þýði það 76.000 dollara aukningu fyrir fjögurra manna fjölskyldu.

„Stjórnmálamenn dagsins í dag þurfa ekki að gráta fyrir hönd barna morgundagsins. Í raun hafa flest börn dagsins í dag það gott. Allar fjölskyldur í mínu efri-millistéttar nágrenni lifa betur en John D. Rockafeller eldri þegar ég fæddist. Hans ótrúlegu fjárhæðir gátu ekki keypt það sem okkur þykir sjálfsagt í dag, hvort sem það er á sviði samgangna, skemmtana, samskipta eða læknisþjónustu. Rockefeller hafði sannarlega völd og frægð, en hann gat ekki lifað jafn vel og nágrannar mínir í dag“ bætti hann við. Hann viðurkenndi jafnframt að þó svo að ljóst væri að kaka næstu kynslóðar yrði stærri væri enn óljóst hvernig henni yrði dreift.

Mistök að veðja gegn Bandaríkjunum

Hann greindi frá því að þegar foreldrar hans voru ungir hefðu þeir aldrei getað ímyndað sér tilvist sjónvarps og sjálfur hefði hann á sextugsaldri ekki getað séð fyrir sér að hann þyrfti tölvu. Í dag spilaði hann Bridge á netinu í tíu tíma á viku en sagðist þó ekki vera tilbúinn fyrir Tinder.

„Í 240 ár hafa það verið hræðileg mistök að veðja gegn Bandaríkjunum og nú er enginn tími til að byrja. Gullgæs Bandaríkjanna í formi viðskipta og nýsköpunar mun halda áfram að verpa fleiri og stærri eggjum. Börn Bandaríkjanna munu lifa mun betra lífi en foreldrar þeirra,“ skrifaði Buffett.