*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 15. ágúst 2018 11:04

Buffett jók við hlut sinn í Apple

Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag bandaríska fjárfestisins Warren Buffett, jók hlutabréfaeign sína í tæknirisanum Apple.

Ritstjórn
Warren Buffett er stjórnarformaður og framkvæmdastjóri fjárfestingafélagsins Berkshire Hathaway.

Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag bandaríska fjárfestisins Warren Buffett, jók hlutabréfaeign sína í tæknirisanum Apple um 12,4 milljón hluti á öðrum ársfjórðungi þessa árs. 

Fyrirtæki Buffett hefur forðast fjárfestingar í tæknigeiranum eins og heitan eldinn þrátt fyrir að verð á hlutabréfum í tæknifyrirtækjum hafi farið hækkandi á undanförnum árum. Þetta kemur fram í Wall Street Journal.

Eina undantekningin hefur þó verið fjárfesting Buffett í tæknirisanum Apple en fjárfestirinn þekkti hefur sagt að umrætt fyrirtæki sé eini tæknirisinn sem framleiðir neysluvörur sem hann skilur. En ein af megin reglum Buffett þegar kemur að fjárfestingum er að fjárfesta aðeins í fyrirtækjum sem hann skilur.

Berkshire er nú annar stærsti hluthafinn í Apple á eftir Vanguard Group en fyrirtækið á nú 4,96% hlut í tæknirisanum. 

Á öðrum ársfjórðungi seldi Berkshire 4,5 milljón hluti í bandaríska bankanum Wells Fargo en keypti jafnframt 2,3 milljón hluti í Goldman Sachs Group Inc. og 9,9 milljón hluti í U.S. Bancorp.

Berkshire heldur alla jafna eignarhaldi sínu í fyrirtækjum undir 10% til að forðast reglur sem fylgja stærri eignarhlut.

Fyrirtækið breytti einnig eignarhaldi sínu í flugfélögum á ársfjórðungnum en það jók mikið við hlut sinn í Delta Airlines Inc. og Southwest Airlines Co, meðan það minnkaði við eign sína í American Airlines Group Inc. og United Continental Holdings.