Fjárfestirinn Warren Buffett sagði í viðtali við CNBC í dag að hann hefði gert stór mistök þegar félag hans, Berkshire Hathaway, keypti hlut í verslanakeðjunni Tesco árið 2006. Yfir nokkurra ára tímabil stækkaði Berkshire hlut sinn og átti árið 2012 um 5,08% hlut í Tesco og var hann um 1,3 milljarða punda virði, andvirði um 250 milljarða króna. Undanfarið hefur Buffett verið að selja hlutabréf í Tesco og var hlutur hans í keðjunni kominn í 3,7% um síðustu áramót.

Undanfarna tólf mánuði hefur gengi hlutabréfa Tesco lækkað um ein 49% og hefur það ekki verið lægra í 11 ár. Í síðustu viku lækkaði gengið um 17% eftir að nýr forstjóri hóf rannsókn á bókhaldsmálum fyrirtækisins og rak fjóra framkvæmdastjóra eftir að í ljós kom að hagnaðaráætlanir Tesco fyrir fyrsta helming ársins voru ýktar.

Berkshire er fjórði stærsti hluthafi Tesco.