Berkshire Hathaway, fjárfestingarfélag Warrens Buffett, hefur fest kaup á rafhlöðufyrirtækinu Duracell fyrir 4,7 milljarða bandaríkjadollara, en það jafngildir um 585 milljörðum íslenskra króna. Financial Times greinir frá þessu.

Procter & Gamble (P&G), fyrrum eigendur Duracell, settu fyrirtækið á sölu í síðasta mánuði, Berkshire Hathaway er fimmti stærsti hluthafinn í P&G. Kaupverðið verður greitt með hlutafé Berkshire Hathaway í P&G, sem ku vera 4,7 milljarða dollara virði. P&G munu hins vegar setja 1,8 milljarða dollara í starfsemi Duracell áður en salan gengur í gegn.

„Ég hef alltaf verið hrifinn af Duracell, bæði sem neytandi en einnig sem langtímafjárfestir í P&G og Gillette,“ sagði Buffett þegar kaupin voru tilkynnt. „Duracell er leiðandi alþjóðlegt fyrirtæki sem framleiðir gæðavöru, og það mun falla vel í hópinn meðal annarra fjárfestinga hjá Berkshire Hathaway.“