Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffett, hefur fest kaup á fyrirtækinu Lubrizol sem framleiðir smurolíu og ýmis bætiefni í bensín. Kaupverð er 9 milljarðar dala. Greitt er í reiðufé. Í frétt Reuters segir að gert sé ráð fyrir aukinni eftirspurn eftir efnum sem notuð eru til að drífa áfram vélar og tæki.

Aðeins eru tvær vikur liðnar síðan að Buffett sendi árlegt bréf til hluthafa í Bershire og sagði að kominn væri tími til að fjárfesta fyrir gríðarlegt lausafé félagsins. Í bréfinu sagði Buffett að honum klæjaði í gikkfingurinn. Alls nam lausafé Berkshire 38 milljörðum dala í lok síðasta árs.

Í tilkynningu um kaupin kemur fram að núverandi stjórnendateymi mun áfra stýra Lubrizol. Berkshire tekur yfir félagið á genginu 135 dollarar á hlut, sem er um 28% hærra en gengi félagsins við lok markaða síðasta föstudag.

Um er að ræða stærstu fjárfestingu Berkshire síðan það keypti Burlington Northern Santa Fe fyrir 26 milljarða dala árið 2009.