Bandaríski fjárfestirinn Warren Buffett telur kauptækifæri til staðar í Japan í dag, eftir að jarðskjálftinn reið yfir. Hlutabréfaverð í kauphöllinni í Tokyo hefur fallið töluvert eftir skjálftann og sveiflur verið miklar. Japan er þriðja stærsta hagkerfi heims.

„Það mun taka einhvern tíma að byggja upp að nýju, en efnahagshorfur hafa ekki breyst,“ sagði Buffett í dag. Hann er staddur í Suður-Kóreu þar sem hann heimsækir verksmiðju sem er í eigu eins af sjóðum Buffetts. „Ef ég ætti japönsk hlutabréf myndi ég alls ekki selja þau,“ hefur Reuters fréttastofa eftir Buffett. Hann telur að jarðskjálftinn hafi skapað afar óvenjulegar aðstæður til hlutabréfakaupa.