Berkshire Hathaway, fjárfestingarfélag auðkýfingsins Warren Buffett, hefur fjárfest um 6 milljörðum dollara, andvirði 828 milljörðum króna, í fimm japönskum fjárfestingarfyrirtækjum. Kaupin koma í kjölfar aukins áhuga japanskra fjárfesta á erlendum mörkuðum sökum dvínandi bjartsýni á efnahagsaðgerðir forsætisráðherra Japans.

Berkshire Hathaway er þekkt fyrir umfangsmiklar fjárfestingar vestanhafs og ákvörðunin því marks um aukin erlendan áhuga. Þrátt fyrir efnahagsáhrif kórónuveirufaraldursins hefur S&P 500 vísitalan aldrei verið hærri þar sem tæknirisarnir hafa leitt hækkanir í Bandaríkjunum og spurning hvort félagið meti sem svo að markaðurinn þar sé yfirverðlagður.

Sjá einnig: Þolinmæði þrautir vinnur allar

Nú á Hathaway, í gegnum dótturfélag sitt National Indemnity, um fimm prósenta hlut í fimm stærstu fjárfestingafélögum Japans, svo kölluð sogo shosha. Eignarhluturinn var virði 6,3 milljörðum dollara 24. ágúst síðastliðinn og hafa kaupin farið fram síðustu 12 mánuði. Umfjöllun á vef Financial Times.

Félagið hefur sagt þann möguleika fyrir hendi að auka hlut sinn upp í 9,9% í öllum félögunum, sem hafa lækkaða talsvert vegna faraldursins, og ætlar félagið að halda þeim til langs tíma. Fyrsta fjárfesting Buffet í Japan nær aftur til ársins 2011, átta mánuðum eftir stóran jarðskjálfta. Þá mat félagið sem svo að markaðurinn væri undirverðlagður og því kjörið tækifæri til að fjárfesta, ekki ósennilegt að slíkt hið sama sé upp á teningnum núna.