Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffett, seldi stóra hluti í bandarískum bönkum á öðrum ársfjórðungi. Félagið seldi hlutabréf fyrir milljarða dollara í Wells Fargo, JPMorgan Chase og öðrum fjármálafyrirtækjum. Financial Times segir frá .

Fjárfestingafélagið gaf út á föstudaginn að það hafi selt 85,6 milljónir hluta í Wells Fargo á fjórðungnum og þar með minnkað eignarhlut sinn í bankanum úr 7,9% í 5,8%. Berkshire seldi einnig 35,5 milljónir hluta í JPMorgan og fór eignarhlutur félagsins úr 1,9% í 0,7%. Auk þess seldi Buffett restina af hlutum sínum í Goldman Sachs, sem hann fjárfesti í miðri fjármálakrísunni árið 2008.

Buffett, í gegnum Berkshire, er einn stærsti hluthafinn í bandarískum bönkum og ákvörðun hans um að draga úr vægi banka í eignarsafni sínu mun vekja athygli fjárfesta víðs vegar um heim. Sama á við um ákvörðun hans um að fjárfesta í Barrick Gold, næst stærsta námufyrirtæki í heiminum

Berkshire hefur þó fjárfest meira en tvo milljarða dollara frá því í lok annars ársfjórðungs í Bank of America, nærst stærsta bankanum í Bandaríkjunum. Eignarhlutur Berkshire í BoA er nú kominn yfir 11%.

Hlutabréf bandarískra banka hafa lækkað verulega í faraldrinum en KBW bankavísitalan hefur fallið um 27% frá því í byrjun febrúar.